Almennt um faggildingu

Hugverkastofan er hin opinberi faggildingaraðili á Íslandi og hefur með höndum allar tegundir faggildinga bæði þar sem er lagaleg krafa um faggildingu og á sviðum þar sem fólki er í sjálfsvald sett að faggilda starfsemi sína. Lagalegur grundvöllur faggildingar er lög nr. 24 frá 2006 um faggildingu. Auk þess hafa verið gefnar út tæknilegar reglugerðir með almennum kröfum og sérkröfum fyrir einstök fagsvið. Starfsemi faggildingar heyrir undir menningar- og viðskiptaráðuneytið.

ISAC – faggildingarsvið er sjálfstætt starfandi svið innan Hugverkastofunnar. Helstu verkefni eru faggildingar en sviðið hefur einnig það verkefni að meta tilnefnda aðila og annast málefni er lúta að reglum OECD um góðar starfsvenjur við rannsóknir (GLP).

Faggildingarsvið Hugverkastofunnar ber einnig nafnið ISAC sem er skammstöfun á ensku heiti sviðsins, Icelandic Board for Technical Accrediation

Faggilding hefur verið starfrækt á Íslandi frá árinu 1992. samkvæmt lögum um vog, mál og faggildingu. Sérstök lög um faggildingu o.fl. tóku gildi í maí 2006. Lögin tryggja að hægt er að starfrækja faggildingu á Íslandi í samræmi við alþjóðlega staðla og reglur.

Faggilding var upphaflega starfrækt á Löggildingarstofu en færðist yfir til Neytendastofu til skamms tíma. Frá apríl 2006 hefur faggilding fengið endanlegt aðsetur og heyrir nú undir Hugverkastofuna sem faglega sjálfstætt starfandi svið.

Faggilding er formleg viðurkenning þar til bærs stjórnvalds á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat svo sem að prófa eiginleika efna, skoða ástand tækja og verksmiðja eða votta stjórnunarkerfi. Samræmismat er mat á því hvort vara, ferli, kerfi eða aðili uppfylli kröfur.

Faggildingarstarfsemin byggir á alþjóðlegu staðlaröðinni ÍST EN ISO/IEC 17000.

Faggildingarsvið býður upp á faggildingu vegna prófunar og kvörðunar, skoðunar af ýmsu tagi og vottunar á gæða- og umhverfisstjórnunarkerfum, vöru og á hæfni starfsfólks. Lista yfir þjónustu sem Faggildingarsvið Hugverkastofunnar býður upp á má finna hér.