Ný útgáfa af R02 Faggildingarmerki og tilvísanir í faggildingi

Faggildingarsvið Hugverkastofunnar vill vekja athygli á því að R02 faggildingarmerki og tilvísanir í faggildingu hefur verið gefið út í útgáfu 4: https://faggilding.is/verklagsogleidbeiningarreglur/

Helstu breytingar eru:

 • Formáli hefur verið settur inn þar sem lýst er hvaða skjöl er stuðst við gerð þessara verklags- og leiðbeiningarreglna
 • Lið 1.15 hefur verið bætt við
 • Orðinu „bréfsefni“ bætt við í lið 1.16
 • Lið 1.21 hefur verið bætt við
 • Lið 1.23 hefur verið bætt við
 • Orðinu „vefsíðu“ bætt við lið 1.24.3
 • „Eins og hægt er“ fjarlægt úr lið 1.24.6

Sérfræðingur í faggildingu óskast

Faggildingarsvið Hugverkastofu leitar að öflugum einstaklingi, sem hefur áhuga og metnað til að sinna krefjandi og fjölbreyttum verkefnum sem snúa að veitingu faggildingarþjónustu á Íslandi. Viðkomandi tekur þátt í stefnumótun og uppbyggingu faggildingarþjónustu sem og innleiðingu nýrra verkefna og vinnur náið með sviðsstjóra.

Í boði er spennandi starf í nútímalegu umhverfi hjá metnaðarfullri stofnun sem starfar í alþjóðlegu umhverfi.

Helstu viðfangsefni

 • Ráðgjöf og þjónusta á sviði faggildingar
 • Þróun og viðhald faggildingarkerfa
 • Umsjón og framkvæmd faggildingarúttekta
 • Rekstur og viðhald stjórnunarkerfis
 • Samskipti við innlenda og erlenda hagaðila og viðskiptavini
 • Þátttaka í erlendu samstarfi
 • Önnur tilfallandi verkefni í samráði við næsta stjórnanda

Hæfniskröfur

 • Háskólapróf sem nýtist í starfi, t.d. á sviði verkfræði, raunvísinda, tæknifræði eða náttúruvísinda eða önnur hliðstæð menntun.
 • Reynsla á sviði iðnaðar og framkvæmda er kostur
 • Þekking á starfsumhverfi samræmismatsstofa s.s. skoðunar- eða prófunarstofa er kostur
 • Ríkir samskiptahæfileikar, jákvætt og lausnamiðað viðhorf
 • Hæfni og áhugi á teymisvinnu og geta til að starf sjálfstætt
 • Þekking/reynsla af stjórnunarkerfum, gæðastjórnun eða sambærilegum kerfum er kostur
 • Góð íslensku- og enskukunnátta

Hlutverk faggildingar er að tryggja að starfsemi skoðunarstofa, prófunarstofa (rannsóknarstofa) og vottunarstofa uppfylli alþjóðakröfur um hæfi og hæfni með skilgreindu eftirliti sem byggir á alþjóðastöðlum og íslenskri og evrópskri löggjöf.

Faggildingarsvið Hugverkastofunnar (ISAC) er opinber faggildingaraðili á Íslandi og hefur með höndum allar tegundir faggildinga bæði þar sem er lagaleg krafa um faggildingu og á sviðum þar sem aðilum er í sjálfsvald sett að faggilda starfsemi sína.  Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu faggildingarsviðs http://www.faggilding.is

Laun taka mið af kjarasamningi Fjármálaráðherra við viðeigandi stéttarfélag.

Nánari upplýsingar veitir:

Upplýsingar um starfið veitir Elías M. Erlendsson sviðsstjóri faggildingarsviðs í tölvupósti elias.m.erlendsson@faggilding.is eða í síma 580 9400.

Öllum umsóknum um starfið verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Starfshlutfall er 100%.

Umsóknarfrestur er til og með 13. mars nk.

Við hvetjum áhugasama til að sækja um, óháð kyni og uppruna.

Umsókn skal fylgja ferilskrá og kynningarbréf á íslensku þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur um hæfni viðkomandi til að gegna starfinu.

Umsjón með starfinu hafa Auður Bjarnadóttir (audur@vinnvinn.is) og Margrét Stefánsdóttir (margret@vinnvinn.is).

Samstarf milli faggildingarsviðs Hugverkastofunnar og SWEDAC undirritað

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ulf Hammarström, forstjóri sænsku faggildingarstofunnar SWEDAC, undirrituðu í dag endurnýjað og uppfært samkomulag um samstarf á vettvangi faggildingar. Samkomulagið styður við sameiginlega sýn Norðurlandanna á vegum norrænum ráðherranefndarinnar um að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Faggilding gegnir í því sambandi lykilatriði við að efla samkeppnishæfni og efla traust og fagþekkingu innan norrænu hagkerfanna.

,,Faggilding eykur samkeppnishæfni atvinnulífsins og því er afar ánægjulegt að þessi samningur sé loksins kominn í höfn. Margir hafa komið að undirbúningum og þakka ég þeim sérstaklega fyrir,“ segir Lilja Dögg. 

Faggilding er formleg viðurkenning stjórnvalds á því að tiltekinn aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat á framleiðslu vöru eða þjónustu. Með faggildingu er þannig tryggt að aðilar sem framleiða vörur eða þjónustu í samræmi við tilteknar opinberar kröfur eða tiltekna staðla geti fengið framleiðslu sína vottaða og þannig tryggingu fyrir því að framleiðslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar.

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið að því að efla faggildingarstarfsemi hér á landi m.a. með því að tryggja að faggildingarsvið Hugverkastofunnar (ISAC) uppfylli viðeigandi kröfur í Evrópureglum með framkvæmd jafningjamats.

Jafningjamat tryggir að faggildingar framkvæmdar hér á landi af faggildingarsviði Hugverkastofunnar verði viðurkenndar á EES-svæðinu og gerir samstarfssamningurinn íslensku faggildingarstofunni ISAC kleift að nálgast faglegan og tæknilegan stuðning við framkvæmd faggildingar hjá einni af stærstu faggildingarstofum í Evrópu. Aukið samstarf Norðurlandanna á þessu sviði sem og öðrum mun efla tengsl og styrkja faglegan grundvöll fyrir starfsemi stjórnvalda.

Sjá fréttina á vef Stjórnarráðsins hér

Faggildingar á Íslandi: Opinn kynningarfundur 25. ágúst     

Menningar- og viðskiptaráðuneytið og faggildingarsvið Hugverkastofunnar í samvinnu við Samtök verslunar- og þjónustu og Samtök iðnaðarins bjóða til opins kynningarfundar um málefni faggildingar á Íslandi. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 25. ágúst kl. 10-12 á 1. hæð í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35.

Á fundinum mun Ulf Hammarström, forstjóri sænsku faggildingarstofunnar SWEDAC, fjalla um hlutverk faggildingar í Svíþjóð og hvernig faggilding nýtist þar í starfi sænskra stjórnvalda ásamt því að taka þátt í umræðum gesta.

Sjá nánar hér:  https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/08/19/Faggildingar-a-Islandi/

R02 faggildingarmerki og tilvísanir í faggildingu uppfært

Faggildingarsvið Hugverkastofunnar vill vekja athygli á því að R02 faggildingarmerki og tilvísanir í faggildingu hefur verið gefið út í útgáfu 3: https://faggilding.is/verklagsogleidbeiningarreglur/

Frestur til að aðlaga sig að nýjum kröfum er til 1. septembert 2022.

Breytingar í þessari útgáfu eru eftirfarandi:

Liðir 1.3. og 1.6 hafa verið uppfærðir þannig að nú er samræmismatsstofum skylt að vísa til faggildingar með faggildingarmerki eða texta á skýrslum og vottorðum sem innihalda faggiltar niðurstöður nema um annað sé samið í skriflegu samkomulagi milli samræmismatsstofu og viðskiptavini hennar.

Ný útgáfa af R02

Faggildingarsvið Hugverkastofunnar vill vekja athygli á því að R02 faggildingarmerki og tilvísanir í faggildingu hefur verið gefið út í útgáfu 2: https://faggilding.is/verklagsogleidbeiningarreglur/

Viðbætur eru merktar með gulum lit en strikað er yfir texta sem hefur verið eytt úr skjalinu.

Frestir til að aðlaga sig að nýjum kröfum eru eftirfarandi:

Eigi síðar en 1. mars 2022: Fyrir rafræna miðla og skjöl

Eigi síðar en 1. september 2022: Forprentuð skjöl sem nú þegar hafa verið prentuð

Notkun á eldri útgáfum af faggildingarmerkinu verður óheimil eftir 1.september 2022

F01 Tilkynning um breytingar

Ný útgáfa af eyðublaði F01 Tilkynning um breytingar hefur verið gefin út.

Breytingar frá fyrri útgáfu eru þær að viðauka fyrir skoðunarstofur ökutækja þegar nýtt útibú er opnað eða þegar starfsemi útibús er flutt hefur verið bætt við.

Breytingar eru merktar með gulum lit í skjalinu.

Eyðublaðið má finna hér.

Verklags- og leiðbeiningarreglur

Faggildingarsvið Hugverkastofunnar hefur gefið út verklags-og leiðbeiningarreglur: R01 Verklags- og leiðbeiningarreglur og R02 Faggildingarmerki og tilvísanir í faggildingu.

Þær eru settar á grundvelli 4. gr. laga um faggildingu o.fl., nr. 24/2006.

R01 og R02 tilgreina helstu leikreglur í faggildingarkerfinu og hvernig meðhöndla skuli faggildingarmerki og vísa til faggildingar.

Kröfur og leiðbeiningar sem fram koma í R01 og R02 hafa nú þegar tekið gildi og ber nú öllum faggiltum aðilum að fara eftir þeim. Faggiltum aðilum er þó gefinn tími til lok árs 2020 að aðlaga sig að kröfum um faggildingu sé þess þörf. Úttektir það sem eftir lifir árs verða þó gerðar með hliðsjón af þessum kröfum.

Rafrænir kynningarfundir á R01 og R02 verða haldnir miðvikudaginn 28.október og er hægt að velja á milli tveggja tímasetninga:

10:00-11:30

13:00-14:30

Kynningarnar verða haldnar MS Teams. Skráning fer fram með því að senda póst á isac@isac.is fyrir 26.október.

Aðlögunartími fyrir ISO/IEC 17025 hefur verið lengdur

ILAC hefur ákveðið að aðlögunartími fyrir ISO/IEC 17025:2017 hafi verið framlengdur frá 30.nóvember 2020 til 1. júní 2021.

Lengri aðlögunartími er veittur til þess að faggiltir aðilar geti betur uppfyllt þær breytingar sem gerðar voru á staðlinum í ljósi erfiðari aðstæðna vegna Covid-19.

Frétt ILAC um málið má finna hér.

Ný heimasíða

Ný heimasíða Faggildingarsviðs Hugverkastofunnar hefur verið tekin í notkun. Hér má finna helstu upplýsingar um faggildingu ásamt verklags-og leiðbeiningarreglum fyrir faggilta aðila. Jafnframt er hér birtur listi yfir aðila sem faggildingarsvið Hugverkastofunnar hefur faggilt.