Faggildingarráð

Faggildingarsvið Hugverkastofunnar (ISAC) er opinber faggildingaraðili á Íslandi og hefur með höndum allar tegundir faggildinga bæði þar sem er lagaleg krafa um faggildingu og á sviðum þar sem mönnum er í sjálfsvald sett að faggilda starfsemi sína.

Lagalegur grundvöllur faggildingar er lög nr. 24 frá 2006 um faggildingu og reglugerð nr. 566 frá 2013 um markaðseftirlit, faggildingu o.fl., sem innleiðir reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins EU 765/2008 um faggildingu og markaðseftirlit og er grunnvirki faggildingarstarfsemi í Evrópu.

Starfsemi faggildingaraðila skal fylgja alþjóðastaðlinum ISO/IEC 17011:2017 (Samræmismat – Kröfur til faggildingarstofnana sem faggilda samræmismatsstofnanir) ásamt frekari kröfum leiðbeiningaskjölum sem gefin eru út af Evrópustofnun um samvinnu á sviði faggildinga (EA) og alþjóðasamtökum faggildingaraðila (ILAC og IAF). Í 4. grein EU 765/2008 kemur fram að faggildingarstofnanir í aðildarríkjunum skuli koma á fót og viðhalda viðeigandi skipulagi til að tryggja skilvirka og jafna þátttöku allra hagsmunaaðila innan sinna samtaka og í greinum 4.4.5 og 4.4.6 í staðlinum ISO/IEC 17011 er gerð krafa um að faggildingaraðili hafi skjalfest fyrirkomulag til að tryggja hlutleysi þannig að tryggt sé að haghafar geti haft efnislega aðkomu að starfsemi faggildingaraðilans.

Til að uppfylla ofangreindar kröfur er starfandi Faggildingarráð sem skipað er af menningar- og viðskiptaráðuneytinu og er tilgangur þess að styrkja starfsemi faggildingar hér á landi og auka tengsl og samráð milli haghafa faggildingar og ISAC. Faggildingarráð er ráðgefandi gagnvart ISAC varðandi almenna starfsemi faggildingar, stefnumótunar og þróunar og veitir ISAC og ráðuneytinu faglega ráðgjöf um málefni faggildingar. Faggildingarráð hefur ekki áhrif á ákvarðanir um einstakar faggildingar.

Hlutverk Faggildingarráðs eru meðal annars að:

  1. Vera menningar- og viðskiptaráðuneytinu, öðrum ráðuneytum og stofnunum til ráðgjafar um faggildingarstarfsemi í landinu.
  2.  Gera tillögur að stefnumótun um starfsemi ISAC þegar við á með sérstöku tilliti til sjónarmiða haghafa.
  3. Vera tengiliður milli haghafa og faggildingarstarfseminnar í landinu til þess að tryggja gott samstarf og gegnsæi í upplýsingum með það að markmiði að byggja upp traust á faggildingarstarfsemin og að hún þjóni þörfum landsins sem best.
  4. Fjalla um og gera tillögur til ISAC um ný faggildingarsvið þegar við á og vera til ráðgjafar um á hvern hátt best er staðið að samvinnu við hagaðila og veita ISAC álit á hvaða þjónustu skuli bjóða upp á eða hvort hætta skuli að bjóða þjónustu innan einstakra faggildingarkerfa/ samræmismatskerfa.
  5. Veita ISAC ráðgjöf um málefni er tengjast starfsemi faggildingarsviðsins beint, svo sem um atriði sem tengjast hlutleysi og almenningsáliti. Hér getur einnig verið um að ræða meginsjónarmið er tengjast tæknilegum og stjórnunarlegum þörfum og sjónarmiðum haghafa og á hvern hátt faggilding muni nýtast þeim best.
  6. Taka þátt í kynningu á faggildingarstarfsemi. Megináhersla verður á að kynna opinberum aðilum og aðilum hins frjálsa markaðar á hvern hátt faggilding getur nýst s.s. við eftirlit ýmissa stjórnvalda og við kaup á þjónustu, innan heilbrigðiskerfisins og almennt á vettvangi atvinnulífsins t.d. í tengslum við viðskipti innanlands og utan o.s.frv.
  7. Veita umsögn um kröfuskjöl ISAC og fjalla um lagasetningu og reglugerðir sem tengjast faggildingu.
  8. Veita umsögn um áhættu- og hlutleysisgreiningar ISAC á starfsemi sviðsins.
  9. Svara fyrirspurnum um faggildingarmál sem berast kunna.
  10. Leita eftir samstarfi við nefndir og ráð sem fjalla um málefni sem tengst geta faggildingu með það að markmiði að hugmyndafræði faggildingar verði tekin til skoðunar.

ISAC setur kröfur til fulltrúa ráðsins að þeir hafi:

  • Viðeigandi þekkingu á faggildingu.
  • Viðeigandi þekkingu á rekstri og starfsemi ISAC.
  • Viðeigandi þekkingu og skilning á stöðlum, skjölum, lögum og reglugerðum, bæði innlendum og alþjóðlegum sem tengjast faggildingu.

ISAC veitir fulltrúum Faggildingarráðs þjálfun í ofangreindum atriðum með upphafsnámskeiði og endurmenntun eftir því sem þurfa þykir.

Samsetning Faggildingarráðs miðar að því að tryggja aðkomu sjónarmiða helstu haghafa faggildingar. Ráðherra skipar formann Faggildingarráðs. Faggildingarráð setur sér starfsreglur sem ná m.a. til hæfis ráðsfólks við gerð umsagna og álita, þagnarskyldu, ritunar fundargerða o.s.frv. Skipað er í Faggildingarráð til tveggja ára. Störf innan ráðsins eru ólaunuð.

Faggildingarráð 2021-2023

  • Ágúst Þór Jónsson, skipaður formaður án tilnefningar
  • Ágúst Ágústsson, tilnefndur af Vinnueftirlitinu
  • Árni H. Kristinsson, tilnefndur af hagsmunahópi faggiltra aðila innan SVÞ
  • Anna Margrét Halldórsdóttir, tilnefnd af heilbrigðiráðuneyti
  • Benedikt Sveinbjörn Benediktsson, tilefndur af SVÞ 
  • Björg Ásta Þórðardóttir, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins
  • Dóra S. Gunnarsdóttir, tilnefnd af Matvælastofnun
  • Elva Rakel Jónsdóttir, tilnefnd af Umhverfisstofnun
  • Jóhann Ólafsson, tilnefndur af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
  • Óskar Ísfeld Sigurðsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  • Leifur Gústafsson, tilnefndur af Samgöngustofu
  • Sigurður Másson, tilnefndur af Neytendasamtökunum