Hvað er faggilding?

Faggilding er formleg viðurkenning þar til bærs stjórnvalds á því að aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat.


Samræmismat er mat á því hvort vara, ferli, kerfi eða aðili uppfylli kröfur.


Samræmismat getur t.d. verið að prófa eiginleika efna, skoða ástand tækja eða að votta stjórnkerfi.
Faggilding er mat á hæfni samræmismatsstofu til að vinna þessi tilteknu verk.


Hlutverk faggildingar er að tryggja að ekki sé vikið frá stöðlum.


Samræmismatsstofur geta verið í samkeppni sín á milli og verður því faggilding að starfa óháð samkeppni. Aðeins ein faggildingarstofa er í hverju landi. Faggilding er starfrækt alþjóðlega og miðar að því að vara sem er prófuð, skoðuð eða vottuð í einu landi af faggiltum aðila sé viðurkennd í öllum löndum þar sem faggilding er starfrækt. Í Evrópu eru starfandi faggildingarstofur í meira en 40 löndum.


Faggildingu má skipta í tvo hópa, lögbundna og sjálfvalda. Lögbundin á við um skoðunar-, vottunar-, eða prófunarstofur sem starfa á sviðum þar sem gerð er ytri krafa um faggildingu. Ytri kröfur geta komið frá ríkjum og mismunandi mörkuðum. Samræmismatsstofur sem starfa fyrir hönd íslenska ríkisins þurfa lögum samkvæmt að vera faggiltar. Samræmismatsstofur sem ekki þurfa lögum samkvæmt að vera faggiltar geta valið að vera faggiltar til að öðlast meiri trúverðugleika þar sem hæfni þeirra hefur þá verið metin af óháðum aðila.