Kostir faggildingar

Kostir faggildingar eru margir og þeir helstu listaðir hér að neðan.

Fyrir ríkisstjórnir
Faggilding er talin æskilegasta aðferðin til að tryggja að almenningur beri traust til aðgerða sem hafa áhrif á heilsu, velferð, öryggi og umhverfi. Faggilding er því notuð til að velja hæfa aðila til að annast framkvæmd settra reglna og stefnu yfirvalda.

Fyrir atvinnugreinar
Faggilding er mikilvægt tæki til ákvarðanatöku og áhættustjórnunar. Fyrirtæki geta sparað tíma og peninga með því að velja faggiltan og þar af leiðandi hæfan birgi.
Faggilding getur veitt betri aðstöðu í samkeppni og auðveldar aðgang að útflutningsmörkuðum í Evrópu og víðar.
Markmiðið er „Prófað eða vottað einu sinni, viðurkennt hvar sem er“
Nákvæmar mælingar og prófanir gerðar samkvæmt bestu starfsvenjum fækka gölluðum vörum, halda framleiðslukostnaði í skefjum og stuðla að nýjungum.

Fyrir faggilt fyrirtæki
Faggilding er hlutlæg staðfesting fyrir því að fyrirtæki viðhafi bestu starfsvenjur. Um er að ræða alþjóðlega viðurkennt kerfi sem er notað til að þróa og viðhalda hágæðaframmistöðu. Með faggildingu er talið að aðgangur og hæfi að tilboðum og alþjóðlegum verkefnum og viðskiptum aukist.

Fyrir neytendur
Faggilding eykur traust neytenda með því að tryggja stöðugan og háan gæðastaðal þeirrar vöru eða þjónustu sem keypt er.