Alþjóðlegt samstarf

Veigamikill þáttur í starfsemi faggildingarsviðs Hugverkastofunnar eru samskipti við erlenda aðila tengda faggildingu. Helstu verkefni og samstarf faggildingarsviðs á erlendri grund má sjá hér að neðan.

Faggildingarsvið er aðili að faggildingarsamvinnu í Evrópu, European co-operation for Accreditation (EA). Þá er í gildi samningur við SWEDAC, faggildingarstofuna í Svíþjóð um aðstoð við faggildingarmat sem tengir faggildingar okkar við marghliða samning (MLA, Multi Lateral Agreement), sem faggildingarstofur innan EA hafa gert með sér um gagnkvæma viðurkenningu á skýrslum og vottorðum frá faggiltum fyrirtækjum. EA tryggir að allir aðilar samningsins geri jafngildar kröfur til faggildingar og metur reglulega hvort aðilarnir uppfylli samþykktar reglur.

EA (European co-operation for Accreditation)
EA er samvinna faggildingarstofa í Evrópu. Hlutverk þess er að tryggja samræmda starfsemi faggildingarstofa í ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu með þróun og kynningu leiðbeininga og viðmiða fyrir faggildingu. EA er samband faggildingarstofa sem viðurkenndar eru hver í sínu landi á Evrópusvæðinu og er ekki rekið í hagnaðarskyni.

EA, sem vinnur sem samtök án samkeppni, hefur eftirtalin markmið: Að stuðla að afnámi tæknilegra viðskiptahindrana með því að samhæfa þjónustu á sviði faggildingar og samræmismats. Að veita framkvæmdastjórn EB og EFTA tæknilegan stuðning sem auðveldar framkvæmd tilskipana og þróun samninga um gagnkvæma viðurkenningu. Að stuðla að alþjóðlegri viðurkenningu faggildingar og faggiltrar þjónustu með því að traustir og áreiðanlegir marghliða samningar séu haldnir.

Meðal hagsmunaaðila EA eru eftirtaldir: samræmismatsaðilar (rannsóknarstofur, vottunar-og skoðunarstofur), framkvæmdastjórn EB og EFTA, eftirlitsaðilar, atvinnuvegir og neytendur. Hagsmuna þeirra er gætt með aðild að ráðgjafarnefnd EA (EA Advisory Board (EAAB)) og nefndum EA.

Árlega eru haldnir fundir og ráðstefnur á vegum EA sem starfsfólk faggildingarsviðs sækir.

EA – MLA samkomulagið
Alheimsviðurkenning og alþjóðleg staðfesting. Marghliða samkomulag EA (MLA) gerir vöru og þjónustu kleift aðfara yfir landamæri í Evrópu og um allan heim. MLA gerir faggildingu að „vegabréfi“ sem auðveldar aðgang að EB og alþjóðlegum mörkuðum með samvinnu við ILAC (International Laboratory Accreditation Co-operation) og IAF (InternationalAccreditation Forum).

Stofnun MLA milli faggildingarstofa í EA skapar gagnkvæmt traust og samþykkt á, faggiltum vottorðum, skoðunum, kvörðunarvottorðum og prófunarskýrslum. MLA veldur því að þau sem bjóða vöru og þjónustu þurfa ekki lengur vottun í hverju landi þar sem þau selja vöru sína eða þjónustu. EA aðilar sem hafa undirritað EA MLA samkomulagið þurfa að sæta ströngu fjölþjóðlegu jafningjamati. Markmiðið með þessu kerfisbundna mati, sem fer fram á vettvangi, er að sannprófa að þau sem hafa undirritað samkomulagið uppfylli áfram hin alþjóðlega samþykktu viðmið. Þetta jafningjamat tryggir samræmd og samhæfð faggildingarviðmið og auðveldar einnig þeim sem undirritað hafa samkomulagið að skiptast á upplýsingum og reynslu.

Faggildingarsvið undirgekkst jafningjamat EA í apríl 2022 og varð aðili að MLA samkomulaginu í október 2022.

NORDA
Faggildingarsvið er meðlimur í NORDA samtökunum sem eru samtök faggildingastofa á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Meðlimir NORDA hittast ár hvert og bera saman bækur sínar.

SWEDAC
Á milli faggildingarsviðs og SWEDAC er í gildi sérstakur samstarfssamningur sem felur í sér að SWEDAC faggildir fyrir hönd faggildingarsviðs skv. samstarfssamningnum.